Tvísöngur er eitt
merkasta fyrirbæri þjóðlagaarfs okkar. Hann hefur viðhaldist á Íslandi í a.m.k.
sjö aldir og það var ekki fyrr en seint á 19. öld sem við Íslendingar fóru að týna
honum niður. Það eru fjörutíu og tveir tvísöngvar í bók sr. Bjarna Íslensk þjóðlög
og eru þeir allir komnir frá söngmönnum í Húnavatnssýslu, þar sem tvísöngurinn
lifði lengst. Tvísöngur er tvíradda söngur þar sem raddirnar hreyfast oftast í
samstíga fimmundum og er fylgiröddin ýmist fyrir ofan eða neðan laglínuna. Tvísöngvar
eru oftast í lýdiskri tóntegund, sem hljómar einkennilega í eyrum nútímamannsins,
en einnig í dúr og moll. Á tónleikunum syngja kvæðamenn Rímu, Guðrún &
Svanfríður, Gústaf & Örlygur, nokkra skemmtilega tvísöngva.
Rætur: Rúnir og Spindel fyrir einleiks selló
eftir Sigrun Eng.
Norðmenn og Íslendingar hafa sömu rætur. Þessi staðreynd hefur alltaf heillað mig og þá ekki síst íslenska tungumálið sem er formóðir Norskunnar; brot af sögunni sem lifir sjálfstæðu lífi á „sögueyjunni“. Þegar ég heyri Íslensku talaða kannast ég við orð og orð úr gamalli Norsku, orð sem eru að falla úr málinu. Þetta er eins og að vera fornleifafræðingur í tungumálum. Mig langaði til að kanna hvort Ísland og Noregur deildu einnig rótum í tónlist og pantaði því tónverk hjá tveimur tónskáldum, hvor af sínu þjóðerni og bæði voru þau sérfræðingar í þjóðlagatónlist síns lands. Tónverkin eru mjög ólík, hvort með sinn sérstaka stíl. Ég segi skilið við klassíska víbrató-stílinn þegar ég túlka þessi tónverk en halla mér heldur að hreinum þjóðlagastíl söngraddarinnar. Þessi tónverk opna nýjar dyr inn í tónlistarveröld mína og vonandi þína líka.
Hvað með upprunalegu spurninguna - höfum við sameiginlegar rætur hvað tónlist varðar? Ég læt ykkur hlustendum eftir að greina það.
Verkefnið er stutt af af Norska menningarráðinu og Norsk - Íslenska samstarfssjóðnum.
Sigrun Eng er sellóleikari frá Lillehammer í Noregi. Auk þess að hafa meistaragráðu í klassískum sellóleik, hefur hún sótt námskeið hjá fjölmörgum kennurum. Sigrun spilar jöfnum höndum klassíska tónlist, jass og þjóðlagatónlist og starfar sem sellóleikari með ólíkum tónlistarhópum í Osló.
Guðrún Ingimundardóttir (Rúna) fæddist á Húsavík árið 1963. Hún er með bakkalársgráðu í tónsmíðum/tónfræði frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og meistara- og doktorsgráðu frá University of Arizona í tónsmíðum/tónlistarmannfræði. Rúna hefur haldið námskeið í kveðskaparlist og tvísöng innanlands sem utan, verið leiðbeinandi nemenda í meistaranámi og starfar sem tónlistarkennari við Tónskóla Fjallabyggðar þar sem hún m.a. kennir kveðandi. Hún er formaður Stemmu - Landssamtaka kvæðamanna og sérfróð um samning UNESCO um verndun menningarerfða.
Rúnir er samið fyrir Sigrun Eng. Þær Rúna og Sigrun hittust á þjóðlagahátíð í Noregi árið 2014 þar sem Sigrun kynntist íslenskum tvísöngvum og heillaðist af þeim. Í framhaldinu pantaði Sigrun tónverk í þjóðlagastíl , byggt á tvísöngvum. Nafnið á tónverkinu vísar til nafnanna Sigrun og Guðrún og líka til hins forna norræna stafrófs sem hér birtist í tónum frá fyrri tíð. Rúnir er í 5 köflum og er tilbrigði við 6 íslenska tvísöngva sem bæði heyrast í frjálsum leik og í þeirri mynd sem sr. Bjarni ritar þá í bók sinni Íslensk þjóðlög. Sigrún tengir kaflana saman með því að spinna tónabrú á milli þeirra.
Nils Økland er mikilsvirt tónskáld, fiðlu- og harðangursfiðluleikari sem á hugmyndaríkan hátt víkkar út tónlistarhefð Noregs. Hann lýsir tónlist sinni sem barni ljóðrænnar þjóðlagatónlistar og kraftmikils pönks. Nils hefur gefið út sex plötur, fjórar hjá hinu virta hljómplötufyrirtæki ECM. Hann spilar með mörgum ólíkum tónlistarhópum, klassík, jass, þjóðlagatónlist og rokk.
Spindel: Tónverkið er samið fyrir sérstaka stillingu á sellóstrengjunum (C-G-C-G) sem kallar fram óvenjulegan hljóðheim fyrir sellóið, en þessi stilling strengjanna er mikið notuð í norskri fiðlutónlist og á Hjaltlandseyjum. Spindel varð til í samvinnu við Sigrúnu Eng. Hún lærði stefin og form verksins eftir eyranu, en það er beinagrind tónverksins sem Sigrun byggir flutning sinn á. Vegna þessa frjálsa spuna skapar Sigrun nýtt Spindel í hvert sinn sem hún spilar það. Í miðju verkinu spinnur Sigun draumkennda kadensu. Hrynjandi verksins er líkt og hringdans, þar sem dansararnir snúast hring eftir hring. Takturinn sveiflast á milli 6/8 og 2/4 sem bregður oft fyrir í norskum þjóðdönsum, s.s. í gangar og rull. Sigrun notar fæturna til að draga fram taktinn eins og hljóðfæraleikarar gera í Noregi þegar þeir leika fyrir dansi.