Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar

Veggspjald Þjóðlagahátíðar 2009 - prentvæn útgáfa (PDF 3.2 Mb) Þjóðlagahátíðin á Siglufirði 2009 er sú tíunda sem Félag um Þjóðlagasetur sr. Bjarna

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði 1.-5. júlí 2009Veggspjald Þjóðlagahátíðar 2009 - prentvæn útgáfa (PDF 3.2 Mb)

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði 2009 er sú tíunda sem Félag um Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar stendur fyrir á Siglufirði. Hátíðin þakkar þeim fjölmörgu sem styrkja hana með fjárframlögum eða eigin vinnuframlagi. Sérstakar þakkir fá Fjallabyggð, Sildarminjasafn Íslands, Menningarráð Eyþings og RARIK, Gistiheimilið Hvanneyri, Tónastöðin, Rauðka ehf, Tónlistarsjóður, Norvík hf og BYKO.

Hér má nálgast upplýsingar um aðgangseyri og námskeiðsgjöld.


Dagskrá Þjóðlagahátíðar


Gönguferð

Miðvikudagur 1. júlí
Ráðhústorg kl. 12:30
Dalaskarðsganga
Göngunni líkur með kjötsúpu kl. 17:00
á Hverfisgötu heima hjá Ásdísi.


Tónleikadagskrá

Miðvikudagur 1. júlí

Siglufjarðarkirkja kl. 20.00
Ró - Hljómsveitin Mógil leikur íslensk þjóðlög.
Hljómsveitina skipa Heiða Árnadóttir söngkona, Hilmar Jensson gítarleikari, Guðni Franzson klarinettuleikari og Ananta Roosens fiðluleikari. Diskurinn Ró með hljómsveitinni var valinn meðal bestu hljómdiska ársins 2008 af Morgunblaðinu og tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna.

Bátahúsið kl. 21.30
Þegar íshjartað slær – Tómas R. Einarsson og félagar

Tómas R. Einarsson fagnar 30 ára kynnum sínum af kontrabassanum. Tónleikarnir eru helgaðir lögum meistarans. Með honum leika Ómar Guðjónsson á gítar og Samúel J. Samúelsson á básúnu og slagverk.

Fimmtudagur 2. júlí

Siglufjarðarkirkja kl. 20.00
Lög Inga T. Lárussonar – Bergþór Pálsson baritón, Bragi Bergþórsson tenór og Þóra Fríða Sæmundsdóttir píanóleikari flytja sönglög þessa Schuberts okkar Íslendinga.

Bátahúsið kl. 21.30
Blómstur við ysta haf - Rósin okkar

Rósin okkar flytur írsk, norsk og íslensk þjóðlög. Rósa Jóhannesdóttir fiðla, harðangursfiðla og söngur, Sólveig Thoroddsen írsk harpa og söngur, Skarphéðinn Haraldsson söngur, gítar, bodhrán, Ari Agnarsson harmónikka og gítar og Kristján Kristmannsson söngur og gítar.     

Allinn kl. 23.00
Söngvar frá Napolí – Delizie Italiane

Leone Tinganelli gítarleikari og söngvari, Jón Elvar Hafsteinsson gítarleikari, Jón Rafnsson kontrabassaleikari leika og syngja þjóðlög frá Napolí.

Föstudagur 3. júlí

Siglufjarðarkirkja kl. 20.00
Allt með sykri og rjómaBryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og

Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari eru meðal þekktustu tónlistarmanna okkar Íslendinga.  Þær hafa gefið út geisladiska og komið fram á tónleikum víða um lönd, saman, einar sér eða með öðrum. Þær flytja tónlist eftir Jón Nordal, Þórð Magnússon og fleiri íslensk tónskáld.

Bátahúsið kl. 21.30
Melchior – Hljómsveitin Melchior

Hljómsveitin Melchior naut mikilla vinsælda um 1980. Hún gaf út plötur og hélt tónleika. Hljómsveitin kemur nú fram aftur í fyrsta sinn eftir tæplega 30 ára hlé með nýtt og gamalt efni.

Allinn kl. 23.00
Jón Múli og Jenni Jóns  – Tríó Andrésar Þórs Gunnlaugssonar

Djasstríóið leikur blöndu af þjóðlögum og íslenskum dægurlögum úr smiðju Jóns Múla, Jenna Jóns og fleiri íslenskra dægurtónskálda. Tríóið skipa Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar, Birgir Bragason á kontrabassa og Scott McLemore á trommur.

Laugardagur 4. júlí

Bátahúsið kl. 14.00
Ekki er öll vitleysan eins – Ljótu hálfvitarnir

Hljómsveitin Ljótu hálfvitarnir leikur tónlist í þjóðlagastíl, bæði þjóðlög og eigin tónsmíðar. Hljóðfærakostur sveitarinnar er mjög fjölbreyttur og textagerðin óneitanlega mjög sérstök. Írsk áhrif eru sterk í leik hennar en einnig íslensk rímnalög.

Siglufjarðarkirkja kl. 17.00
Steindór Andersen og vinir - kvæðamanni til heiðurs

Á tónleikunum koma fram helstu kvæðamenn okkar Íslendinga nú um stundir og tónlistarmenn úr poppgeiranum sem hafa unnið með Steindóri í gegn um tíðina. Þar á meðal eru Páll Guðmundsson á Húsafelli og Sigur Rós. Flutt verður tónverkið Hrafnagaldur fyrir steinaspil og órafmögnuð hljóðfæri sem byggir á kvæðalögum frá fyrri tímum. Meðlimir úr Sinfóníuhljómsveit unga fólksins flytur verk eftir Lárus Grímsson fyrir kvæðamann og hljómsveit.

Allinn kl. 20.30
Uppskeruhátíð
Nemendur á námskeiðum sýna afrakstur vinnu sinnar
Hljómsveitin Hraun leikur fyrir dansi.

Sunnudagur 5. júlí

Siglufjarðarkirkja kl. 14.00
Sinfóníuhljómsveit unga fólksins
Hector Berlioz: Rómverskt karnival
Carl Reinecke: Flautukonsert í D-dúr
Franz Schubert: Ófullgerða sinfónían í h-moll

Einleikari: Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari
Stjórnandi: Gunnsteinn Ólafsson

Melkorka Ólafsdóttir stundaði tónlistarnám við Tónskóla Sigursveins, Tónlistarskólann í Reykjavík og LHÍ áður en hún hélt til framhaldsnáms í Haag og Amsterdam í Hollandi. Þaðan lá leiðin til Parísar og London, en við Guildhall School of Music and Drama hlaut hún James Galway verðlaunin. Hún stofnaði Tríó Lurra í Hollandi við þriðja mann og hefur komið fram með tríóinu víða um lönd. Melkorka hefur leikið með ýmsum hljóðfærahópum, þ.á.m. í Orkester Norden, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput, Het Nieuw Ensamble, The Barton Workshop, hljómsveit Hollensku óperunnar, Fílharmóníuhljómsveitinni í Rotterdam og hinni frægu Concertgebouw hljómsveit í Hollandi.

Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, Ungfónía, var stofnuð árið 2004 og tekst á við þrjú verkefni á sex tónleikum á hverju ári. Hljómsveitin hefur leikið á Þjóðlagahátíð á hverju ári frá stofnun. Hún er skipuð um 50 tónlistarnemum sem langt eru komnir í námi hér á landi. Einleikarar með sveitinni eru jafnan nemendur sem eru um það bil að ljúka námi við erlenda tónlistarháskóla eða eru að stígu sín fyrstu skref sem einleikarar. 

Gunnsteinn Ólafsson er aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins og jafnframt listrænn stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði.


Námskeið fyrir fullorðna

Námskeiðin eru tveggja daga námskeið og standa yfir 2. og 3. júlí, ýmist hálfan eða allan daginn. Á uppskeruhátíðinni á laugardagskvöld sýna nemendur afrakstur námsins.
Hér má sjá nánari upplýsingar varðandi þáttöku í námskeiðunum. Skráið ykkur á námskeið með því að senda tölvupóst á festival@folkmusik.is

Rímnakveðskapur – Bára Grímsdóttir
Hálfsdagsnámskeið: 9.00-12.00 -tvisvar sinnum 3 tímar

Bára Grímsdóttir söngkona og tónskáld hefur um langt árabil verið flytjandi íslenskra þjóðlaga og kvæðalaga. Hún ólst upp við kveðskap og söng foreldra sinna og afa og ömmu, m.a. í Grímstungu í Vatnsdal. Þegar fjölskyldan flutti suður til Reykjavíkur gerðust foreldrar hennar félagar í Kvæðamannafélaginu Iðunni og fór Bára jafnan með þeim á fundi og í sumarferðir félagsins. Bára hefur sérstakan áhuga á rímum og kvæðalögum en hefur einnig kynnt sér hinn fjölbreytilega þjóðlagaarf liðinna alda, bæði veraldlegan og trúarlegan.

Trúbadoranámskeið – Svavar Knútur Kristinsson                                 
Hálfsdagsnámskeið: 14.00-17.00 -tvisvar sinnum 3 tímar
Svavar Knútur Kristinsson er nemandi í söng við Söngskólann í Reykjavík en hefur einnig starfað sem trúbador til margra ára. Hann stóð í fyrra fyrir komu erlendra trúbadora til landsins og saman ferðuðust þeir vítt og breitt og héldu tónleika. Á námskeiðinu koma saman áhugamenn um trúbadoramenningu. Nemendur leika og syngja hver fyrir annan og kennari ræðir um það sem betur mætti fara. Gerð verða ný lög á námskeiðinu og flutt á uppskeruhátíðinni í lok námskeiðs.

Rýnt í ræturnar: Saga forfeðranna í nýju ljósi - Eyrún Ingadóttir
Hálfsdagsnámskeið: 9.00-12.00 -tvisvar sinnum 3 tímar
Á námskeiðinu verður kennt hvernig hægt er að nota heimildir til að skrifa ævibrot forfeðra sinna og annarra látinna einstaklinga. Hvar á að leita að upplýsingum um einstaklinga frá 19. og 20. öld? Eru til heimildir og eru þær aðgengilegar? Hvernig er best að vinna úr þeim? Ættfræðiforrit, ættfræðirit, dagblöð, kirkjubækur og aðrar opinberar heimildir verða notaðar til að rekja ævi eins Íslendings sem var fæddur á ofanverðri 19. öld.

Keðju- og skartgripagerð – Ásdís Birgisdóttir og Margrét Linda Gunnlaugsdóttir
Tvö hálfsdagsnámskeið: 9.00-12.00 eða 14.00-17.00. Hvor hópur mætir tvisvar sinnum í 3 tíma.
Ásdís Birgisdóttir og Margrét Linda Gunnlaugsdóttir eru textílhönnuðir og hafa kennt skartgripa- og keðjugerð í mörg ár. Auk þess hafa þær hannað handprjón og textíl fyrir verslanir, tímarit og sýningar. Á námskeiðinu læra nemendur að gera keðjur með aðferð sem þekkst hefur frá miðöldum. Notaður er kopar- og silfurvír. Nemendur læra að saga í sundur og lykkja saman eftir mismunandi aðferðum svo úr verða mismunandi mynstur, t.d. Kóngakeðja og Drottningarkeðja. Nemendur taka með sér fínar tangir (spóakjaft) og klíputöng ef þeir eiga.

Búlgarskir dansar - Veska Andrea Jónsdóttir
Hálfsdagsnámskeið: 14.00-17.00 -tvisvar sinnum 3 tímar
Dansar eru mikilvægur þáttur í lífi fólks á Balkanskaga. Þjóðdansar eru dansaðir á mikilvægum stundum í lífi fólks, svo sem við brúðkaup, skírn, á nafndögum eða helgdögum. Dansinn er einnig stiginn þegar fólk hittist eða gerir sér dagamun á heimilum eða að heiman. Oft er spiluð tónlist af fingrum fram undir dansinum. Dansinn er einnig tjáningarform. Sá sem dansar getur spunnið sinn eigin dans með því að blanda saman ólíkum skrefum við grunnskref dansins eða gert eigin tilbrigði við þau. Þannig verður dansinn einstakur í hvert skipti.

Barnagælur og þulur – Sigríður Pálmadóttir og Ása Ketilsdóttir
Hálfsdagsnámskeið: 14.00-17.00 -tvisvar sinnum 3 tímar
Ása Ketilsdóttir er sveitakona úr Ísafjarðardjúpi en ólst upp við kveðskap í Aðaldal. Sigríður Pálmadóttir er lektor við leikskólaskor Háskóla Íslands (áður KHÍ). Á námskeiðinu verða kenndar þulur sem Ása Ketilsdóttir lærði í æsku af ömmu sinni, sem lærði þær einnig af forfeðrum sínum.

Flókagerð – Margrét Steingrímsdóttir
Hálfsdagsnámskeið: 14.00-17.00 -tvisvar sinnum 3 tímar

Margrét Steingrímsdóttir er handverkskona og hefur lengi stundað kennslu á því sviði. Hún fæst við nýsköpun og hönnun og hefur sýnt verk sín á einkasýningum.  Á námskeiðinu verða mismunandi aðferðir í flókagerð kynntar. Námskeiið er ætlað bæi byrjendum og þeim sem hafa reynslu af flókagerð. Efniskostnaður á nemanda er 1200-1500 fyrir ullina. Hver efniskostnaðurinn verður fyrir silkið á eftir að koma í ljós.

Íslensk glíma – Oddbjörn Magnússon
Tímasetning eftir samkomulagi

Oddbjörn Magnússon hefur kennt glímu á námskeiðum víða um land. Hann hóf kennsluna á Þjóðlagahátíð sumarið 2007. Á námskeiðinu verður stiklað á stóru um sögu þessarar þjóðaríþróttar Íslendinga. Kennd verða nokkur brögð, svo sem sniðglíma, hælkrókur hægri og leggjarbragð.                                 

Blómstursaumur og skorningur – Guðrún Erla Geirsdóttir (Gerla)                             
Heilsdagsnámskeið: 9.00-12.00 og 14.00-17.00 -tvisvar sinnum 6 tímar
Gerla hefur vakið athygli fyrir að endurvekja gamalt handbragð í hannyrðum, svo sem refilsaum og skreytingu klæða með roði. Hún hefur haldið sýningar og unnið til verðlauna fyrir hugmyndaríka hönnun, ekki síst fyrir refilsaum og nýtingu á fiskiroði. Á námskeiðinu verður kenndur blómstursaumur á hliðartösku. Nemendur geta valið úr nokkrum forteiknuðum þjóðlegum munstrum eða teiknað sitt eigið munstur. Nemendur útsauma með blómstursaumnum á framhlið lítillar hliðartösku (stærð c.a. 17 x 25 cm). Stefnt er að því að í lok námskeiðsins hafi hver nemandi lokið við fullunna tösku, tilbúna til notkunar. Efniskostnaður á hvern nemanda er verður 1.000-2.000 kr.

Námskeið fyrir börn og unglinga
Námskeiðin eru ókeypis fyrir börn nemenda á öðrum námskeiðum.

Víkinganámskeið fyrir börn – Óskar Birgisson Víkingur
Heilsdagsnámskeið: 9.00-12.00 og 14.00-17.00 -tvisvar sinnum 6 tímar

Óskar Birgisson er félagi í Víkingafélaginu Rimmugígi og hefur haldið námskeið í menningu víkinga á víkingahátíðum hérlendis. Börnum verður boðið upp á námskeið í menningu víkinga. Þau læra að búa til vopn og klæði, þeim verða sagðar sögur frá víkingaöld, leiknir leikir sem víkingar gerðu sér til gamans og fleira fjörugt.

Stompnámskeið fyrir unglinga – Jón Geir Jóhannsson
Heilsdagsnámskeið: 9.00-12.00 og 14.00-17.00 -tvisvar sinnum 6 tímar

Jón Geir Jóhannsson er tónlistarmaður og hefur leikið með hljómsveitinni Hraun til nokkurra ára. Hann hefur kennt stomp á námskeiðum víða um land, m.a. á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði. Á námskeiðinu verður unglingum kennt að spila á allskonar stangir og tunnur. Unglingarnir semja tónlistina sjálfir og flytja á útitónleikum í lok hátíðar


Fyrirlestrar og kennsla

Fimmtudagur 2. júlí kl. 13.00 á Kirkjuloftinu
Kúbanskur tónlistararfur – Tómas R. Einarsson tónskáld
                                                                                                                     
Föstudagur 3. júlí kl. 13.00 á Kirkjuloftinu
Saga trúbadorsins - Svavar Knútur Kristinsson söngvaskáld

Laugardagur 4. júlí kl. 10.00-12.00
Búlgarskir dansar - Veska Andrea Jónsdóttir danskennari


Myndlistarsýningar

Charlotte McGowan-Griffin er bresk listakona með aðsetur í Berlín. Síðastliðinn áratug hefur hún unnið mest með pappír. Árið 2004 fór hún að tengja pappírsverk sín við ljós, skugga og nota myndvarpa til að skapa stórar innsetningar. Verk Charlotte eru einskonar hugleiðingar um það hvernig mannleg hegðun endurspeglar “stórkostlegt undur” nattúrunnar og fyrirbæri hennar. Sjá nánar um Charlotte McGowan-Griffin á www.myspace.com/mcgowangriffin

Innsetning Charlotte í Herhúsinu er annar hluti verkefnis sem hófst með staðbundinni  innsetningu í Berlín í vor og hún nefnir “The Whiteness of the Whale” (Hvítleiki hvalsins). Titill verksins kemur frá sögunni Moby-Dick eftir Hermann Melville og fjallar um það hvernig mannlegur ótti, ímyndunnarafl og hjátrú birtist í aldagömlum táknum hvals, skips og hafs. Myndlistarsýning Charlotte í Herhúsinu opnar kl. 17:15 föstudaginn 3. Júlí. Tónlistar viðburður - allir velkomnir.

Finnska myndlistarkonan Hanneriina Moisseinen (f. 1978) heldur myndlistarsýningu á Gránuloftinu á Þjóðlagahátíð. Hanneriina er fjölhæf listakona og fæst við teikningar, innsetningar, höggmyndir, teiknimyndasögur, málverk og umhverfislist, auk þess sem hún hannar hljóðlist í rými. Að hennar mati er öll sköpun af sömu rót og því hægt að mála tónlist og syngja sögu; engin skil séu í raun á milli ólíkra listgreina. Sjá frekari upplýsingar um listakonun á www.elisanet.fi/moisseinen

Á meðan á Þjóðlagahátíðinni stendur mun Hanneriina teikna bæði listamenn og gesti hátíðarinnar. Hún hengir myndirnar jafn óðum upp á Gránuloftinu þar sem þær verða til sýnis. Teikningunum fjölgar dag frá degi allt til loka Þjóðlagahátíðar. Sýningin er því ekki fullmótuð fyrr en að loknum síðustu tónleikum hátíðarinnar. Fagnaður fullmótaðrar myndlistarsýning Hanneriina verður á Gránuloftinu kl. 19:00 laugardaginn 4. júlí. Allir velkomnir.Þjóðlagaakademía

Námskeið í samvinnu við HÍ (áður KHÍ) um íslenskan tónlistararf. Kennt er um rímnalög, barnagælur og þulur, tvísöng, forn hljóðfæri, sálmasöng og íslenska og búlgarska þjóðdansa. Akademían stendur 2.-5. júlí. Sjá nánar hér.


Gisting á Siglufirði

Gistihúsið Hvanneyri á Siglufirði s. 467-1506
Bjarnagil í Fljótum s. 467-1030
Góð tjaldstæði eru í miðbænum og fyrir sunnan snjóflóðavarnargarð
Ferðaþjónusta Siglufjarðar býður heimagistingu s. 467-2293
 

Auglýsingar

Raddir Íslands
Folk Music Festival
Síldarminjasafnið
Héðinsfjörður

Mynd augnabliksins

fidur_og_gitar.jpg

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.13 2009 - Stefna ehf