Á þessu námskeiði verður leitast við að kynnast söngvum íslensku söngvaskáldanna frá byrjun 19. aldar til dagsins í dag, allt frá Sveinbirni Sveinbjörnssyni til Megasar!
Sungin verða saman þekkt og minna þekkt íslensk sönglög og kórlög en einnig verður leitast við að finna forna fjársjóði sem leynast í söngasjóði þjóðarinnar. Lög úr skólasöngbók Skálholtssveina frá 17. öld fá t.d að laumast með.
Námskeiðið er í anda baðstofumenningarinnar á 19. öld þar sem þátttakendum gefst kostur á að syngja saman.
Þátttakendur fá sönghefti með úrvali íslenskra söng- og kórlaga eftir hina ýmsu höfunda. Efniskostnaður: kr. 1.500.
Hilmar Örn Agnarsson hefur stjórnað fjölmörgum kórum sl. 30 ár. Hann var kantor Skálholtskirkju í 17 ár og sl. 3 ár starfað sem kantor Kristskirkju. Hilmar er sprottinn upp úr nýbylgjubandinu ,,Þeyr", þar sem hann var bassaleikari og lagasmiður, en söðlaði um ungur að árum og gerðist organisti í Þorlákskirkju í Þorlákshöfn 23 ára að aldri, að loknu tónmenntakennaraprófi. Jónas Ingimundarson var hans aðalkennari. Þaðan lá leiðin til Hamborgar þar sem hann lauk kantorsprófi árið 1991. Hilmar stjórnaði öflugu sönglífi í Biskupstungum, barnakór, unglingakór, Skálholtskórnum og Kór Menntaskólans að Laugarvatni. Hann stjórnaði um árabil stúlknakórnum Karítum Íslands og í dag er hann stjórnandi Kammerkór Suðurlands, Söngfjelagsins og Barnakór Neskirkju. Hilmari Erni voru veitt starfslaun listamanna árið 2012.