Þjóðlagasveitin KORKA er skipuð tónlistarfólki af Suðurlandi. Sveitin leitar aftur um aldir í lagavali, búningum og nafngift. Uppistaðan í efnisskránni eru íslensk þjóðlög, en sveitin ferðast að auki um slóðir víkinga og leikur m.a. þjóðlög frá Noregi, Írlandi og Mið-Evrópu. Birgit Myschi útsetur flest laganna, önnur eru flutt eins og hefðin býður og erlend þjóðlög hafa fengið íslenska texta. KORKA kemur alltaf fram í víkingaklæðum, en meðlimir KORKU kynntu sér klæðagerð forfeðranna og sáu sjálfir um saumaskapinn. Með nafni KORKU er vísað í Laxdælasögu, en þar er hin þunna lína milli alþýðu og aðals persónugerð í írsku ambáttinni og konungsdótturinni Melkorku Mýrkjartansdóttur.
KORKA kom fyrst fram í þjóðveldisbænum í Þjórsárdal á Landnámsdegi vorið 2008. Auk tónleikahalds hefur sveitin komið fram við ýmis tækifæri s.s. á fundum, ferðakynningum, menningarmálaráðstefnum og hátíðum. KORKA fékk styrk frá Menningarráði Suðurlands árin 2009 og 2012.
KORKU skipa:
Birgit Myschi – kontrabassi, gítar
Elva Dögg Valsdóttir – söngur, gítar
Guðmundur Pálsson – fiðla
Helga Sighvatsdóttir – blokkflautur
Ingibjörg Birgisdóttir – blokkflautur
Stefán I. Þórhallsson – ásláttarhljóðfæri